Ágætu Keilisfélagar

2013-11-15T00:54:31+00:0015.11.2013|

Á næsta aðalfundi Golfklúbbsins Keilis mun ég bjóða mig fram til formanns.

Ég hef setið í stjórn Golfklúbbsins síðan 9. des. 2008, á þeim tíma hef ég setið í íþróttanefnd ásamt því að sinna hlutverki íþróttastjóra.

Kona mín er Helga Laufey Guðmundsdóttir, saman eigum við 4 börn.

Ég útskrifaðist með stúdentspróf frá Flensborg árið 1989. Síðan hef ég lokið diplómanámi með áherslu á fjármál og rekstur frá Háskólanum í Reykjavík. Síðustu 20 árin hef ég starfað sem stjórnandi í sjávarútvegsfyrirtækjum.

Áherslur mínar sem viðkoma rekstri GK eru:

Þróun golfs sem almenningsíþróttar. Í golfíþróttinni býr svo margt umfram aðrar íþróttir þegar kemur að samveru, útiveru og almennri hreyfingu að ég tel þar búa óteljandi tækifæri.

Mikilvægi þess að við Keilismenn áttum okkur á þeim aðstæðum sem við búum við hér í Hafnarfirði. Völlurinn okkar er í göngufæri við miðbæinn, á einstöku vallarstæði sem ekki mun stækka á næstu árum. Tækifæri okkar liggja þ.a.l. í því að auka gæði vallarins stöðugt með það að markmiði að hann geti talist samkeppnisfær á alþjóðavísu.

GK er eins og lítið samfélag í bæjarfélaginu Hafnarfirði. Mikilvægt er fyrir bæði Hafnarfjörð og GK að gera sér grein fyrir skuldbindingum og þörfum hvors annars, sérstaklega með tilliti til mikilvægis almenningsíþrótta í framtíðinni.

Ég leita eftir stuðningi þínum ágæti Keilisfélagi.

Arnar Borgar Atlason