Golfskálinn brennur

2013-11-20T20:49:53+00:0020.11.2013|

Á vefsíðunni gaflari.is er búið að setja inn klippt myndband frá því er Vesturkot, gamla klúbbhús keilismanna var brennt enn það var í árslok 1992. Hér má sjá myndbandið. Hér fyrir neðan má sjá teksta Halldórs Árna sem hann setti inná síðuna í því tilefni. Á myndbandinu má sjá gamla, uppkomandi og fráfallna Keilismenn og þá skemmtilegu stemmningu sem ríkti í klúbbnum á þessum stóru tímamótum.

Gamla myndband dagsins sýnir göngu félagsmanna Keilis frá nývígðu félagsheimili sínu á Hvaleyrarholti að því gamla, Vesturkoti, til að brenna það.

Fyrir nokkru hafði Ágúst Húbertsson, fyrrum framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Keilis, samband við mig til að forvitnast um gamlar upptökur mínar af starfsemi og félögum í Keili þar sem Keilismenn væru að safna saman gömlum heimildum. Spurði hann sérstaklega um upptöku af því þegar farin var blysför að gamla félagheimilinu í Vesturkoti og það brennt, sennilega í árslok 1992.

Nú hef ég fundið þessa upptöku, klippt hana til og snurfusað og set hér á svæðið með gömlu upptökunum mínum. Hún er þó í lengra lagi þar sem mig grunar að marga langi að sjá vel stemninguna og andlitin sem þarna birtast. Auk Gústa sjálfs eru þarna meðal annars Hálfdan Þór Karlsson þáverandi formaður, Guðjón Sveinsson sem var formaður þar á eftir, Halldór Halldórsson, Þröstur og stjórnarmaður í Keili með skegg!, Árni Hjörleifsson bæjarfulltrúi, bræðurnir Ingimar og Guðmundur Haraldssynir, Steingrímur Guðjónsson prentari í Steinmark, Helgi Gunnarsson rafvirki, Kristín Pálsdóttir og Sveinn Sigurbergsson, kaupmaður í Fjarðarkaupum, en faðir hans, Sigurbergur Sveinsson var einmitt einn af stofnendum golfklúbbsins Keilis.

Þá eru nokkrir sómamenn sem kvatt hafa frá því þessar myndir voru teknar s.s. Gísli Sigurðsson ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins, Þorsteinn Jónsson flugkappi og Þorsteinn Kristinsson endurskoðandi og sjoppukóngur við Hringval. Og fleiri og fleiri.

Eitthvað er til meira af Keilisfólki og verður sett hér eftir því sem ég rekst á ræmurnar.