Gleðilegt sumar Keilisfélagar

2013-04-25T08:09:51+00:0025.04.2013|

Mörgum kylfingnum brá eflaust í brún í gærmorgun við ofankomu og erfið akstursskilyrði. Vorið er þó örugglega á næsta leiti en hefur lítið látið á sér kræla á Hvaleyrinni þennan aprílmánuð.

Við slíkar aðstæður verður stóra spurningin þessi; hvenær opnar völlurinn?

Það gleðilega er að ástand flata er í grunninn nokkuð gott. Ekki hefur verið mikið um skemmdir eftir veturinn og því er grasþekja heilt yfir góð. Jarðvegshitastig er enn of lágt til að styðja grasvöxt (þarf að vera í um 5° C). Ekki er æskilegt að hleypa umferð um völlinn fyrr en það gerist. Hinsvegar má búast við því að völlurinn verði fljótur að taka við sér þegar hitastigið þokast uppávið.

Því miður þá er enn töluvert næturfrost í kortunum og jafnvel smá frostakafli snemma í næstu viku. Eins og staðan er í dag þá reiknum við með að opnun vallarins verði í kringum 5. maí. Þessi dagsetning er þó ekki grafin í stein og getur færst til í hvora áttina sem er. Við munum þó gera allt það sem í okkar valdi stendur til að opna völlinn sem fyrst, enda er það allra hagur að golfþyrstir félagsmenn geti hafið golfsumarið 2013.

Einsog síðustu ár er það stefna okkar að opna völlinn með Hreinsunarmóti 2013. Voru bjartsýnustu vonir okkar að það hefði getað farið fram 1. maí, en ákvörðun hefur nú verið tekinn að fresta því til 5. maí.

Við hvetjum alla kylfinga sem vettlingi geta valdið að taka þátt í hreinsunardeginum og þar með Hreinsunarmótinu.