Daniel Harley vallarstjóri ársins

2013-03-04T19:44:40+00:0004.03.2013|

Síðastliðinn laugardag stóðu Samtök íþrótta og golfvallastarfsmanna (SÍGÍ) fyrir ráðstefnu um uppbyggingu og viðhald golf og knattspyrnuvalla. Samhliða ráðstefnunni héldu samtökin aðalfund sinn og þar var bryddað upp á þeirri nýjung að velja vallarstjóra ársins, bæði fyrir golfvelli sem og knattspyrnuvelli.

Til þess að aðstoða okkar við valið á vallarstjóra ársins leituðum við til aðila innan golfsins og báðum þá um að velja fyrir okkur þá velli sem þeim þóttu bestir sumarið 2012. Þeir sem fengu boð um að velja vallarstjóra ársins voru, félagar í PGA á Íslandi, landsdómarar og forsvarsmenn allra golfklúbba á Íslandi. Svörunin var með ágætum og fór það svo að Daniel Harley, vallarstjóri hjá Golfklúbbnum Keili var kjörinn vallarstjóri ársins 2102 og er hann vel að þeim titli kominn.

„Óskum við Daniel Harley kærlega til hamingju með þessa nafnbót og þökkum við þeim sem tóku þátt í að velja vallarstjóra ársins kærlega fyrir. Það er okkar von að þetta eigi eftir að verða árlegur viðburður héðan í frá og titill sem verður eftirsótt að vinna,“ segir í tilkynningu frá SÍGÍ.