Framboð til stjórnar Keilis

2017-11-28T15:44:09+00:0028.11.2017|

Aðalfundur 7. desember n.k.

Einsog kom fram í siðasta fréttabréfi þá stendur til að kynna framboð til stjórnar Keilis á heimasíðu klúbbsins. Aðalfundurinn fer fram 7. desember n.k og hefst klukkan 19:30 stundvíslega. Á fundinum verða kynntar áhugaverðar niðurstöður úr viðhorfskönnun Keilis, sem og þjónustukönnun GSÍ.

Hér að neðan má sjá þá sem hafa ákveðið að bjoða sig fram til stjórnar og formanns Keilis á næsta aðalfundi.

Til kjörs verða þrír nýjir meðlimir í stjórn Keilis samkvæmt lögum félagsins til tveggja ára. Og hér að neðan má sjá nánari kynningu á þeim.

Framboð til formanns:

Á næsta aðalfundi Golfklúbbsins Keilis mun ég bjóða mig fram til formanns.

Ég hef setið í stjórn Golfklúbbsins frá aðalfundi 2014 auk þess að sitja í kvennanefnd frá árinu 2013 og síðar sem formaður kvennanefndar. Ég sit einnig í rekstrarnefnd.

Sambýlismaður minn er Jón Ingi Jóhannesson og eigum við saman eitt barn

Ég er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri með mastersgráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. Síðastliðin 10 ár hef ég sinnt starfi fjármálastjóra hjá Malbikunarstöðinni Hlaðbæ Colas hf en sit einnig sem varamaður í stjórn Birtu Lífeyrissjóðs.

Keilisfélagar eiga frábært ár að baki þar sem 50 ára afmæli klúbbsins var fagnað með opnun þriggja nýrra hola og stækkun golfskála. Ég held að allir geti sammælst um að Hvaleyrin er eins og nýr völlur og stækkun golfskála umbreytti skálanum í eitt flottasta klúbbhús landsins.

En það eru ærin verkefni framundan, fyrir utan að halda áfram því góða starfi sem þegar er unnið við að halda vellinum alltaf í topp ástandi þarf að að klára Sveinskotsvöll í þeirri mynd sem hann á að vera auk þess sem huga þarf vel að tækjakosti klúbbsins. Einnig þarf að marka vel stefnu komandi ára með tilliti til áframhaldandi breytinga á vellinum og breytingu á útisvæði í kringum golfskálann.

Huga þarf áfram vel að barna- og unglingastarfi klúbbsins, góð skref voru stigin með ráðningu íþróttastjóra á s.l. ári og þurfa þjálfarar Keilis nú á öllum okkar stuðningi að halda við að fjölga iðkendum og minnka brottfall úr íþróttinni.

Það er því engin lognmolla framundan, einungis spennandi tímar sem ég hef mikinn áhuga á að taka þátt í.

Að lokum tel ég mjög mikilvægt að styðja vel við þann góða félagsanda sem er í Keili og gerir hann að þessum skemmtilega og flotta golfklúbbi.

Ég leita því eftir stuðningi Keilisfélaga á n.k. aðalfundi.

Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir

Framboð til stjórnar Keilis:

Daði Janusson hefur setið í stjórn síðustu fjögur árin og þarf nú kjör til áframhaldandi stjórnarsetu. Daði hefur leitt markaðsstarf Keilis með áherslu á heimasíður, viðhorfskannanir, og samfélagsmiðla klúbbsins. Og sækist Daði því eftir kjöri til áframhaldandi setu í stjórn Keilis til tveggja ára.

Bjarni Þór Gunnlaugsson býður sig fram til stjórnarsetu í golfklúbbnum Keili. Bjarni er vel kunnugur setu í stjórnum Íþróttafélaga, enn hann sat um tíma í stjórn knattspyrnukvennadeildar FH. Bjarni er liðtækur kylfingur og er með 15 í forgjöf.

Rúnar Már Bragason. Er 48 ára Kópavogsbúi og hef verið í Keili síðan um aldamót. Langar að leggja mitt að mörkum til að efla klúbbinn. Eftir að hafa kynnst hugmyndafræði í barna- og unglingastarfi Breiðabliks þá myndi ég vilja sjá hvernig megi innleiða hana í starf Keilis. Mín trú er að slík innleiðing efli allt starf í klúbbnum.

Már Sveinbjörnsson er sonur Sveinbjörns Emilssonar, stofnfélaga í Keili. Lærði vélvirkjun í Vélsmiðjunni Kletti, síðan vélstjóri og tæknifræðingur frá Tækniskólanum í Álaborg. Vann sem ráðgjafi fyrir fyrirtæki í 16 ár, þjónustustjóri hjá Globus í 3 ár og hafnarstjóri hjá Hafnarfjarðarhöfn í 22 ár. Már er giftur Guðrúnu Halldórsdóttur (Keilisfélaga) og við eigum 3 börn og 5 barnabörn. Núna er ég hættur að vinna launaða vinnu og get því leikið mér meira en áður.