Gott báðum megin og allt í kring

2013-12-08T16:49:29+00:0008.12.2013|

Kæru Keilisfélagar.

Mig langar að bjóða ykkur mína starfskrafta sem fulltrúi í stjórn Keilis, en kosnir verða 3 nýjir meðlimir í stjórn Golfklúbbsins á næsta aðalfundi.

Golf spilar stórt hlutverk í minni fjölskyldu. Ég byrjaði að spila golf árið 1994 í Danmörku, en konan mín Björk Svarfdal Hauksdóttir og sonur okkar Alexander hafa notið þess að vera í golfi í Keili undanfarin 8 ár. Ásamt þessu eru fjölmargir í ættum okkar beggja sem spila golf Í GK og víðar.

Ég er 45 ára, með MS próf í rekstrarverkfræði frá dönskum háskóla. Undanfarin 10 ár hef ég starfað sem framkvæmdastjóri upplýsingatækni hjá Össur hf, en hef nýlega fært mig yfir til Alvogen hf, sem einnig er íslenskt alþjóðlegt fyrirtæki.

Í mínum huga er golf lífsgæði sem skemmtilegt er að njóta í hópi góðra vina og fjölskyldu. Hjá Keili njótum við þess að hafa aðgengi að frábærri aðstöðu sem byggð hefur verið upp af ötulli vinnu klúbbfélaga í gegnum árin.

Það deilir engin um það að völlurinn okkar er einn sá skemmtilegasti á landinu. Erlendir kylfingar leita á völl okkar vegna einstakrar hönnunar og gæða í allri umgjörð. Sem félagsmaður tekur maður kannski ekki eftir því, en félagsandinn sem ríkir í klúbbnum okkar er til mikillar fyrirmyndar og til eftirbreytni fyrir aðra golfklúbba.

Með framboði mínu langar mig að leggja mitt af mörkum til að halda áfram því góða starfi sem hefur verið unnið hjá Klúbbnum. Sérstaklega hef ég áhuga á að sinna þeirri umgjörð sem klúbburinn þarf að bjóða upp á fyrir félagsmenn. Þetta á jafnt við golfvellina okkar, aðstöðu fyrir félagsmenn og svo hvernig búa megi um starfið þannig að öllum félagsmönnum líði vel.

Hjá okkur félögum í Keili er oft rætt um hvort Hraunið sé betra, skemmtilegra eða erfiðara en Hvaleyrin.

Ef þú leggur mér þitt atkvæði þá mun ég leggja mig fram við það að skapa þá umgjörð sem við getum með stolti sagt að sé góð báðum megin og allt í kring.

Ég vill hvetja alla félaga til að mæta á aðalfundin okkar sem verður mánudaginn 9. Desember klukkan 19:30 og taka þannig þátt í því að tryggja að Keilir geti áfram státað af því að vera einn besti golfklúbbur landsins. Að lokum langar mig að lýsa yfir stuðningi við framboð Arnars Atlasonar til formans klúbbsins í komandi kosningum.

Bestu kveðjur.
Guðmundur Örn Óskarsson.