Skýrsla stjórnar – Ávarp formanns2018-12-10T22:32:01+00:00

Ávarp formanns

Þá er enn eitt golfárið liðið og stöndum við nú á ákveðnum tímamótum þar sem þetta er fyrsta árið sem nýr Hvaleyrarvöllur er í notkun allt tímabilið. Það er ánægjulegt að sjá hversu margir kunna að meta breytingarnar og er nú Hvaleyrin að ná vinsældum Hraunsins sem hefur alltaf fengið yfirburðakosningu í hinni árlegu skoðanakönnun.

Nýjar áskoranir

Nýjum velli fylgja ný vandamál eins og flestir meðlimir urðu varir við í sumar, við misstum röffið úr böndunum sem skapaði óánægju meðal félagsmanna. Veðrið vann svo ekki með okkur þar sem allur sláttur utan brauta var mjög erfiður sökum mikillar bleytu. Auk þess var völlurinn einfaldlega breyttur þar sem svæði sem áður voru slegin eru nú óslegin og nú eru komin ný svæði sem einfaldlega voru ekki til staðar áður vegna þess að brautir liggja ekki lengur saman. Til þess að bæta úr þessu réðist vallarnefnd síðla sumars í það verkefni að gera skipulag vallarins skýrt, þ.e. að fá tillögur og teikningar að því hvernig slátti skuli hagað á vellinum, hversu breiðar brautir eigi að vera og hversu hátt og hversu breitt semi röffið eigi vera þannig að allir, starfsmenn sem kylfingar viti hvernig völlurinn á að líta út hverju sinni. Við fengum Edwin Roald golfvallarhönnuð til að koma að og stýra þessu verkefni en hann hefur unnið að breytingunum á Sveinskotsvelli. Það er von okkar að með þessu skapist sátt um golfvöllinn og sem flestir verði sáttir á nýju ári. Það skal þó hafa í huga að við erum með afar breiðan hóp kylfinga með ólíka sýn.

Fordæmalaus árangur Keilisfólks

Kylfingar Keilis stóðu sig frábærlega í sumar, held það sé hægt að segja að þessi árangur sé fordæmalaus þar sem Keilir vann nánast alla titla sem í boði voru og vil ég enn og aftur óska kylfingum sem og Keilisfólki til hamingju með frábært ár og það verður spennandi að fylgjast þessum kylfingum í framtíðinni. Það sem gaf þessum árangri enn meira gildi er hversu margir stóðu að honum sem sýnir hversu mikla breidd við höfum yfir að ráða.
Það er einnig búið að vera mikið líf í barna og – unglingastarfi klúbbsins og sjáum við merkjanlegan árangur í fjölgun iðkenda. Karl og Björgvin hafa staðið sig mjög vel og verður gaman að fylgjast áfram með því starfi sem þar er unnið enda er það skýr stefna klúbbsins að efla þetta starf til framtíðar.

Það var skemmtileg nýbreytni í sumar að fá KPMG góðgerðarmótið inn þar sem nokkrar stjörnur af LPGA mótaröðinni tóku þátt. Það er gaman að segja frá því að Hvaleyrarvöllur varð fyrir valinu vegna þess góða orspors sem fer af vellinum okkar. Erlendu gestirnir okkar skemmtu sér vel og var dagurinn til sóma fyrir Keili og félagsmenn.

Nýtt app í notkun

Á árinu tókum við í notkun nýtt GLFR app sem virkar sem vallarvísir og auðveldar einnig starfsmönnum Keilis að halda utan um lagnir og fleira sem leynist undir yfirborðinu hjá okkur. En sem dæmi þá liggja í kringum 300 sjálfvirkir vatnsúðarar í vellinum og erfitt hefur reynst að finna og halda utan um nákvæmar staðsetningar þessara hluta. Með appinu geta kylfingar einnig haldið utan um skorið sitt og sent sjálfvirkt til forgjafar inná golf.is. Á næsta ári munum við svo setja holustaðsetningar inní appið þannig að kylfingar munu sjá nákvæma staðsetningu og fjarlægð í holu með GLFR appinu sínu. Appið er hægt að nálgast bæði á Playstore og apple store frítt.

GLFR appið er fáanlegt í App store og Play store.

Miklar breytingar framundan

Formannafundur GSÍ var haldin nú á dögunum og það sem stóð helst upp úr er hin mikla breyting á golfreglunum sem mun taka gildi nú um áramótin og verður það stórt verkefni að uppfræða alla um þær. Einnig mun nýtt forgjafarkerfi golfsins á heimsvísu taka gildi á árinu 2020 en það krefst mikillar undirbúningsvinnu að taka slíkt kerfi í notkun. Þannig þyrfti að fara í gríðarlega vinnu við golf.is til þess að kerfið virki eftir breytingu. Starfrækt hefur verið IT nefnd á vegum GSÍ s.l. tvö ár og eru tillögur hennar nú í ljósi þessarar vitneskju þær að leggja af Golf.is og taka þess í stað upp samstarf við nýjan aðila, Golfbox. Gríðarlegur tími og fjármunir hafa farið í viðhalda golf.is og er það von hreyfingarinnar að því tímabili verði fljótt lokið. Golfbox er alþjóðlegt fyrirtæki sem hefur nú þegar leyst mörg þeirra vandamála sem hafa verið á óskalista klúbbana að laga á golf.is. Við förum því inn í alþjóðlegt kerfi sem notað er um allan heim og eru möguleikarnir endalausir.

Öflugt samstarf við Hafnarfjarðarbæ

Ég get ekki klárað yfirferð mína nema að láta í ljós þakkætti mitt vegna samstarfsins við Hafnarfjarðarbæ. Í vor skrifuðum við undir við samstarfsamning um lokaáfanga við uppbyggingu Hvaleyrarvallar. Samningurinn gerir okkur kleift að klára þá uppbyggingu sem samþykkt var á Aðalfundi Keilis og byggist á teikningum sem Tom Mackenzie og Ebert gerðu um endurskipulagningu Hvaleyrarhluta svæðis okkar. Fyrri samningur náði yfir 1. Áfanga sem félagar þekkja mjög vel nú sem 13-14 og 15 holu enn það sem liggur fyrir okkur á næsta ári er að hefja endurgerð á 16. holu og nýrrar holu sem liggur uppá gömlu 13. flötina.

Einnig kom Hafnarfjarðarbær myndarlega að tveimur stórum viðhaldsverkefnum á svæðinu okkar. Malbikið niður í Hraunkot var farið að láta verulega á sjá og var lagt aftur yfir þá götu, án þeirra aðkomu að því verki hefðum við þurft að bíða talsvert lengur og sætta okkur við holóttan veg eitthvað áfram. Þá var þakið í áhaldahúsinu okkar orðið ónýtt og farið að leka talsvert með öllum þeim óþægindum sem því fylgir fyrir starfsmenn og vélaflota okkar. Skipt var um járn nú í haust og húsið hætt að leka. Þessar tvær framkvæmdir voru greiddar af Hafnarfjarðarbæ að fullu.

Það er okkur mjög í mun að halda sterkum tengslum við Hafnarfjarðarbæ og spilar þar gott barna og – unglingastarf stórt hlutverk ásamt því að halda vel utan um Hvaleyrina þessa útivistarparadís. Þar leikur Umhverfisvottun GEO stóran part í því að viðhalda trúverðuleika okkar gagnvart verndun minja og dýralífs á svæðinu. Við gerum okkur grein fyrir þeirri ábyrgð sem er lögð á herðar okkar við að viðhalda Hvaleyrinni í góðu ásigkomulagi hvort sem er fyrir kylfinga eða þá sem hafa haft búsetu á svæðinu í mun lengri tíma enn við sem iðkum golf á svæðinu.

Við megum svo ekki gleyma að klúbburinn og þar af leiðandi starfsemi okkar er háð landeigandanum Hafnarfjarðarbæ og er því mjög mikilvægt að rækta það samband með upplýsingagjöf og ábyrgum stjórnunarháttum.

Eins og fram hefur komið hér að ofan er nóg að gera framundan og miklar breytingar í farvatninu. Það hefst ekki nema með dugnaði og samvinnu allra enda Keilisfélagar ekki vanir að liggja á liði sínu. Góður félagsandi hefur ávallt einkennt klúbbinn og er það líklega mikilvægasta verkefnið að hlúa sífellt að þessum frábæra félagsskap.

Gleðileg jól
Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir
Formaður