Skýrsla stjórnar – Golfvellirnir2018-12-11T16:47:48+00:00

Golfvellirnir

Í apríl var mikil eftirvænting eftir sumrinu og komu flatir vel undan vetri. Það var þó snemma ljóst að brautir á fyrri níu holum vallarins höfðu orðið fyrir miklu tjóni um veturinn. Þessar skemmdir komu til vegna vatns sem setið hafði í lægðum, og brautirnar ekki í stakk búnar til að hleypa því í gegn um sig.

Strax og færi gafst var byrjað að yfirsá í verstu skemmdirnar, en skilyrði fyrir yfirsáningum af þessu tagi (með skurðarvél) eru því miður háð þurrki. Fljótlega varð okkur ljóst að yfirsáningar myndu ekki ganga jafn hratt og vel fyrir sig og við óskuðum okkur, vegna mikilla rigninga sem virtust engan endi taka. Einnig höfðu flestar þær sáningar sem kláruðust lítinn möguleika á spírun vegna áframhaldandi pollamyndana. Nokkuð ljóst var að vandamálið var meira en aðeins veturinn á undan og miklar rigningar, enda voru aðrar brautir vallarins í flottu standi. Vegna þessa var ákveðið að setja saman langtímaáætlun um breytingu jarðvegssamsetningar brauta á fyrri níu. Helsti partur þessarar áætlunar er að fjarlægja þæfi með lóðskurði, sá í sárin og fylla þau með sandi. Þetta mun verða gert 1x -2x á ári næstu árin.

Flatirnar

Þrátt fyrir að flatir hafi komið nokkuð góðar undan vetri reyndist erfitt að koma þeim almennilega af stað vegna mikilla rigninga og lágs hitastigs. Engin tjón urðu þó á flötum og samhliða hægum vexti var minna álag á þeim en oft áður fyrripart sumars. Áburðargjöf í sumar var haldið í lágmarki eins og árin áður og þrátt fyrir hægan vöxt héldum við okkar striki í áburðargjöfinni og reyndum ekki að hraða um of á vextinum með óábyrgum gjöfum. Þessi nálgun skilaði sér svo seinni part sumars þegar hitastig fór að vera með eðlilegra horfi og misstum við aldrei vöxt flatanna fram úr hófi, sem skilaði sér á jöfnum og hröðum flötum.

Sláttuhæð flata var meiri part sumars í 4,2mm, sem er nokkru hærra en árin áður og útskýrist af því hversu hægur vöxtur var. Flatir voru slegnar uþb. 3x í viku og valtaðar 4x. Flötum var eingöngu gefið köfnunarefni í sumar, þar sem jarðvegssýni sýndu fram á að engin þörf var fyrir önnur efni. Heildar magn köfnunarefnis sem fór út á flatirnar í sumar var 68 kg pr/ha. Flatir voru mjög jafnar í hraða og var hraði flatanna 9 – 9,5 á stimpmeter lungað úr tímabilinu.

Önnur efni sem notuð voru á flatirnar þetta árið voru vatnsmiðlunarefnið Primer Select og vaxastjórnunarefnið Primo Maxx. Þessi efni voru þó notuð yfir styttra tímabil en áður þar sem vöxtur var framan af ekki vandamál og ljóst var svo um mitt tímabil að þurrkur yrði það ekki heldur.

Flatir voru sandaðar með þykku sandlagi í vor og svo þunnu lagi í sumar. Lítið var um gatanir í sumar en jarðvegssýni sýndu að hlutfall lífræns efnis í flötum var í góðu jafnvægi og ekki þurfti að auka loftun í flötum. Í nóvember voru allar flatir sandaðar tvisvar, fyrst með þunnu lagi og svo aftur með þykku sandlagi. Í framhaldi að því voru svo flatir á Hvaleyrarvelli gataðar með 12 mm teinum og munu aðrar flatir og valdir teigar einnig fá götun fyrir veturinn. Þessar gatanir eru aðallega hugsaðar til að hjálpa til við vatnsflæði í vetur, og minnka líkur á polla og klakamyndun.

Í október tókum við eftir sveppasýkingum í svuntum og flötum og brugðumst við því með úðun sveppalyfja á flatirnar. Þessar sýkingar höfum við séð áður og herja þær einungis á vingla og hafa ekki haft í för með sér varanlegan skaða. Verra er þó þegar þessar sýkingar herja á sveifgrösin og því munum við spreyja út sveppalyfi aftur inn í veturinn og vonast til að fyrirbyggja skaðlegar sýkingar í vetur, en tíðarfar í sumar og haust hefur gert grösin einkar móttækileg fyrir slíkum sýkingum.

Framkvæmdir

Eins og fram kemur að ofan var áhersla lögð á nýframkvæmdir á Sveinskotsvelli þetta árið. Miklar breytingar hafa verið á vellinum síðastliðin tvö ár, tímabundnar og varanlegar. Áhersla sumarsins var að klára breytingar á vellinum og koma honum í endanlegt form. Áfram var unnið náið með Edwin Roald golfvallahönnuði, sem hannaði hið nýja skipulag Sveinskotsvallar. Snemma í vor voru teikningar af nýju 9. flötinni tilbúnar og strax hafist handa við uppbyggingu. Vinna við flötina tókst nokkuð vel en dróst aðeins á langinn vegna mikilla rigninga. Sáð var í flötina í ágúst og eru vonir bundnar við að hefja leik á glæsilegri lokaholu Sveinskotsvallar sumarið 2019.

Þrír nýir teigar

Auk frágangi á fyrri teigaframkvæmdum voru byggðir 3 nýir teigar. Gulur og rauður teigur á sjöundu holu og sameiginlegur gulur og rauður teigur á þeirri níundu. Gengið hefur verið frá teigunum á sjöundu holu en enn á eftir að klára að tyrfa teiginn á níundu holu. Opnað verður fyrir spil á nýja níundu holu næsta sumar og mun nýframkvæmdum á Sveinskotsvelli þá verða að mestu lokið.

Æfingasvæði – Hraunkot

Síðastliðin ár hefur æfingasvæði Hraunkots verið ákveðinn höfuðverkur fyrir okkur og svæðið framan við skýlin átt erfitt uppdráttar. Stór ástæða vandamála svæðisins hefur verið ágangur tínsluvélarinnar sem hefur þrýst meira á svæðið en grasið þar þolir. Eins og flestir hafa tekið eftir voru fest kaup á tveimur sjálfvirkum vélum, önnur sér um að tína boltana á svæðinu og hin sér um slátt. Tilgangur þessara kaupa var tvíþættur. Með tilkomu sjálfvirkra véla eykst sjálfbærni svæðisins til muna og viðvera starfsmanna á svæðinu minnkar. Einnig fer það mun betur með svæðið sjálft að hafa vélar sem vega a.m.k. tífallt minna en þær sem fyrir voru notaðar. Nokkuð var þó um erfileika með uppsetningu vélanna og tók það sinn tíma að koma hlutunum í lag, en stafaði það að mestu af lélegri þjónustu framleiðanda. Tínsluvélin var þó í notkun fyrripart sumars og sláttuvélin seinnipart og augljóst var að minnkun ágangs stærri véla á svæðinu skilaði sér strax á viðkvæmum grasflötunum. Þegar þessi texti er ritaður (8. nóvember) er sjálfvirka tínsluvélin enn að störfum á svæðinu með ágætum árangri.

Annar þáttur í aukningu sjálfbærni á svæðinu var fyrirhuguð tilraun með sáningu á fræblöndu sem inniheldur smára. Smárar losa sig við köfnunarefni og með tilkomu þeirra gætu áburðargjafir á svæðinu minnkað. Ekki tókst að framkvæma þessa sáningu vegna veðurfars og anna, en stefnt er að því að sá blöndunni næsta vor.

Malbik frá klúbbhúsi niður að Hraunkoti var farið að láta á sjá og var sá kafli endurmalbikaður í ágúst. Aðgerðin gekk hratt og vel fyrir sig.

Sveinskotsvöllur

Sveinskotsvöllur var fyrirferðamikill í störfum starfsmanna í sumar, enda síðasta áfanga í breytingum vallarins að ljúka. Í vor lágu fyrir ótal verkefni sem klára þurfti í sumar, en þar má helst nefna byggingu fjögurra nýrra teiga auk nýrrar níundu flatar. Einnig var lögð lokahönd á þá teiga sem byggðir voru síðasta haust.

Ráðinn var inn starfsmaður frá Elju starfsmannaleigu, Yordan Yordanov, sem sinnti mest allri gröfuvinnu við framkvæmdirnar á Sveinskotsvelli. Uppbygging nýrrar níundu flatar dróst á langinn vegna veðurs, en gekk þó nokkuð áfallaust fyrir sig. Sáð var í flötina í ágúst og tókst sú sáning ágætlega. Dúkur var settur yfir nýsáninguna og stóð hann í um 3 vikur. Eftir að dúkurinn var fjarlægður var svo sáð aftur í flötina, hún slegin og áburður borinn á hana. Um miðjan október var flötin svo spreyjuð með sveppalyfjum, en nýsáningar sem þessar eru einstaklega móttækilegar fyrir sýkingum.

Seint í haust voru svo gulur teigur á 7. holu og gulur og rauður teigur á 9. holu tyrfðir. Vatn var einnig leitt í alla nýja teiga og því er rauði teigurinn á 7. holu sá eini sem eftir á að tyrfa. Þannig er nýframkvæmdum á Sveinskotsvelli að mestu lokið, þó flötin þurfi auka viðhald á næsta ári svo hún grói sem skyldi. Stefnt er að því að spilað verði inn á þá flöt sumarið 2019 og ætti Sveinskotsvöllur þá að hafa tekið á sig betri framtíðarmynd. Þeir starfsmenn sem sáu að mestum hluta um framkvæmdirnar voru þeir Arnaldur Freyr Birgisson, Yordan Yordanov og Ásgeir Þórðarson auk þess sem Christopher Elrick, vélvirkinn okkar, sá um að hlaða glompuna en hann hefur ára reynslu í gerð glompna sem þessarar.

Spilafletir Sveinskotsvallar voru að öðru leiti góðir þetta sumarið, enda ákveðið í vor að halda báðum völlum á sömu viðahaldsáætlun varðandi slátt, áburð og aðrar aðgerðir og má þar nefna að flatir á vellinum voru að mestu handslegnar í sumar.

Því miður þurftum við að spila inn á bráðabirgðar flöt á níundu braut en það var óhjákvæmilegt við byggingu nýrrar flatar. Kargamál voru erfið þetta sumarið á Sveinskotsvelli en nánar verður farið í þau að neðan.

Útseld vinna

Útseld þjónusta klúbbsins var nokkuð óvenjuleg þetta árið. Vegna tíðarfars um vorið var öllum götunum fyrir Reykjavíkurborg frestað til sumars og hafði þess vegna meiri áhrif á dagleg störf golfvallarins. Venjulega er farið í þessi verk með vori, strax og veður leyfir en þetta árið var ekki byrjað á götuninni fyrr en í lok júní. Einnig bættust við nokkuð margar sandanir og gatanir frá fyrri árum, helst var það vegna tónleikahalds á völlum Þróttara og Laugardalsvallar. Eftirspurn eftir spreyjunum hefur einnig haldið áfram að aukast og nokkuð öruggt að sú þróun haldi áfram næstu árin. Einnig bættist við umsjá og umhirða golfvalla Golfklúbbs Setbergs, og verður það verkefni tekið fyrir hér að neðan.

Að auki við hina föstu liði útseldrar þjónustu klúbbsins, viðhald knattspyrnuvalla ÍTH, brýningar, umhirða púttflata Hrafnistu og þjónusta við knattspyrnuvelli ÍTR, bættust við gatanir og sandanir í Vogum, Grindavík, Njarðvík og Keflavík. Teljum við nokkuð víst að sú þjónusta haldi áfram næstu árin. Einnig var nokkuð um að klúbbar kæmu með sláttukefli í brýningu eða til lagfæringa í sumar.

Þjónustusamningur við Setberg

Þetta árið bættist heldur betur við útselda þjónustu kúlbbsins, en snemma árs var undirritaður þjónustusamningur milli Keilis og Golfklúbbs Setbergs. Það sem að okkur á vellinum snéri í samningnum var öll umhirða golfvalla klúbbsins. Sáum við um alla starfsmenn sem og vallarstjóra fyrir völlinn. Arnaldur Freyr var vallarstjóri á Setbergsvelli í sumar og auk hans voru alltaf að minnsta kosti tveir starfsmenn Keilis við vinnu þar. Vel tókst til með völlinn og meðlimir almennt ánægðir með ástand vallanna. Nálgun okkar á völlinn varðandi áburðargjöf var sú sama og við höfum haft á Keili síðustu ár. Ábyrg áburðargjöf byggð á MSLN kenningunni, eftir að jarðvegssýni hafa verið skoðuð. Einnig var völlurinn spreyjaður með vatnsmiðlunarefnum (Primer Select) fyrripart sumars, en líkt og á Keili þótti ekki þörf fyrir áframhaldandi gjafir vegna bleytu. Í vor voru flatir 3,6 og 8 gataðar með léttri handgötunarvél en þær flatir halda vel í bleytu og raka. Þessar flatir voru svo gataðar aftur um mitt sumar. Tvær sandanir áttu sér stað á Setbergsvelli í sumar. Sú fyrri um vorið, þar sem allar flatir voru sandaðar, og svo valdar flatir “létt-sandaðar“ seinna á tímabilinu.

Ákveðnar flatir á Setbergsvelli hafa oft verið mjög viðkvæmar gagnvart sveppasýkingum. Í lok ágúst tókum við eftir því að sýkingar voru farnar að sjást á flötunum en voru þær á byrjunarstigi. Ákveðið var að bregast hratt við með úðun sveppalyfja og tókst sú aðgerð vonum framar og hurfu öll ummerki hennar og engar nýjar sýkingar létu á sér kræla á eftir. Þó svo sýkingar haustsins hafi verið stöðvaðar er mjög hætt við vetrarsýkingum, og verða allar flatir vallarins úðaðar aftur fyrir veturinn. Að okkar vinnu undaskyldri sáu Setbergsmenn um slátt í kringum skurði sem framkvæmdur var 2x yfir tímabilið, en til þess eiga þeir sérhæfða sláttuvél.

Kargi

Vegna umhverfis-, fjárhags- og útlitssjónarmiða hefur óslegnum svæðum á Hvaleyrarvelli fjölgað síðustu ár. Völlurinn hefur hingað til verið nokkuð þétt spilaður og svæði sem bæst hafa við því hlutallslega lítil. Með skipulagsbreytingum á báðum völlum okkar hafa nú myndast stór og mikil svæði sem ekki eru lengur í leik. Ákveðið var í vor að þau svæði sem ekki teljast til leiks undir venjulegum kringumstæðum skyldu látin ósnert. Nokkurn tíma tók að finna jafnvægi á tengingum ósnertu svæðana við slegin röff og unnið var í þeim málum allt sumarið. Ekki voru allir sammála sláttulínum á svæðunum fyrripart sumars, en hart var unnið að því að færa ósnertu svæðin fjær brautum en leyfa þeim að tengjast þeim á snyrtilegan og sanngjarnan hátt. Í haust var svo Edwin Roald golfvallahönnuður fenginn til að fara yfir þessi mál ásamt starfshópi sem skipaður var af Mannivrkjanenfd og mun hann skila af sér hönnun á slætti vallanna fyrir Aðalfund Keilis.

Fljólega var ljóst að kargi Sveinskotsvallar lítur öðrum lögmálum, enda markmiðið með ósnertum svæðum ekki að refsa meðlimum. Ósnert svæði á Sveinskotsvelli reyndust töluvert nær brautum en sanngjarnt er, en erfitt reyndist því miður að slá þau niður í sumar vegna mikillar bleytu. Þessi röff hafa nú verið slegin niður og mun Edwin Roald gera sérstakt skipulag sem snýr að slætti á Sveinskotsvelli.

Eins og fyrr kemur fram var tíðin í sumar ekki hentug fyrir röffin okkar, hvorki slegnu né þau ósnertu. Röffsláttuvélar okkar þurftu bæði að fara mun hægar yfir, sem og halda tíðari slætti gangandi vegna bleytu. Þrátt fyrir tíðari slátt náðist að spara tölverða fjármuni með aukningu ósnertu svæðana og sjáum við fram á að sá sparnaður gæti aukist um nokkuð hundruð þúsund til viðbótar (einungis starfsmaður og eldsneyti) með eðlilegra tíðarfari.

Þó óslegin svæði séu flest ekki í eðlilegum leik, munum við slá þau öll niður amk. einu sinni á ári. Með því þynnast þau hægt og rólega út og eftir standa há og þunn strá. Fleiri aðgerðum verður beitt í þynningu þessara svæða, en enn er óljóst hvort það verði gert með spreyjunum eða öðrum aðferðum sem kynntar verða síðar.

Merkingar

Haldið var áfram að smíða vegvísa, teigmerki og aðrar merkingar fyrir golfvöllinn. Með þessari vinnu er verið að vinna að heildarútliti allra merkinga. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Fjölbrautaskólann í Garðabæ þar sem einhverfir einstaklingar sjá um smíðina undir stjórn Guðlaugs Georgssonar. Þessi vinna hefur bætt mjög heildarásýnd golfvallanna og verður gaman að vinna áfram að þessu verkefni með Guðlaugi og hans fólki. Í viðhorfskönnun Keilis hefur verið kvartað yfir því að illa sjáist á skiltin og verð stafir málaðir nú í vetur til að sjá betur á skiltin.

Vélakaup

Nú er svo komið að spreybíllinn okkar er alveg að gefa upp öndina. Spreybíllinn var keyptur notaður fyrir um fimm árum síðan og hefur síðastliðin ár verið okkar mikilvægasta tæki á vellinum. Úðanir eru nákvæmnisverk sem einnig þurfa að eiga sér stað á nokkuð nákvæmum tíma. Erfitt hefur reynst að stóla á spreybílinn í sumar þar sem hann hefur bilað í sífellu og í raun lán að ekki hafi hlotist alvarlegt tjón af í nokkur af þeim skiptum. Eftirspurn eftir úðunum fyrir aðra klúbba og íþróttafélög hefur einnig aukist og nokkuð ljóst að spreybílamálum okkar er ábótavant miðað við notkun á tækinu. Tækninni hefur farið nokkuð hratt fram í spreybílum og í dag er hægt að fá slíka bíla með GPS tækni. Svoleiðis tæki myndi skila af sér mun nákvæmari úðunum, á mun skemmri tíma, og ekki þyrfti jafn mikla kunnáttu til að stýra tækinu. Í dag eru okkar reynslumestu starfsmenn oft fastir í spreyjunum en með GPS stýrðu tæki gætu reynsluminni menn auðveldlega séð um slík verk, á skemmri tíma og sóun á efnum yrði engin.

Einnig er ljóst að vélafloti klúbbsins er ekki eins og best verður á kosið. Þó svo að bætt hafi verið við góðum vélum og aukahlutum síðustu ár, eru sláttuvélar okkar mjög gamlar og bilanatíðni og viðhaldskostnaður hár. Erfitt getur reynst að bæta úr þessu ástandi með kaupum á stökum vélum ár frá ári nema til staðar sé langtímaáætlun um endurnýjun á vélaflota. Þannig nýtast kaup á hverri vél fyrir sig betur og lokaútkoman verði þá uppfærður heildrænn vélafloti sem skilar auknum afköstum, tíma og eldsneytissparnaði. Verið er að vinna endurnýjunaráætlun á tækjakosti Keilis með sparnað á vinnu í huga.